Jólaminningar

Jólavefur Júlla 2012

 

 Copyright  Jólavefur Júlla ©

…Þetta var allt svo yndislegt og skemmtilegt

Árið 1986 skrifaði Jón Helgi Þórarinsson fyrir Bæjarpóstinn. Á jólaföstunni heimsótti hann Önnu Jóhannesdóttur frá Syðra Garðshorni Svarfaðardal. Þetta ár var Anna 93 ára . Jón ræddi við hana um jólahald í bernsku. Hér birtum við viðtalið með leyfi frá Bæjarpóstinum. Anna bjó á Dalbæ er viðtalið var tekið en er nú látin.

Anna fæddist í Brekkukoti í Svarfaðardal 1893. Foreldrar hennar voru Steinunn Zóphaníasdóttir og Jóhann Jónsson. Var Anna nokkuð yngst sex systkina. Við báðum Önnu að segja okkur frá jólaundirbúningi í Brekkukoti, en þar bjó hún fram að fermingu. " Fyrst vil ég segja það, að ég átti ákaflega góða æsku . Það þótti öllum vænt um mig. Ég man t.d eftir því að Zóphanías bróðir minn var í legu sem kallað var, var á skipi, og færði hann mér alltaf eitthvað fallegt og gott þegar hann kom heim.

Seldi smáband í kaupstaðnum og keypti jólarúss.

Jólaundirbúningurinn var ekki mikill meðan ég var í Brekkukoti. Það er best að byrja að segja frá því, að að allt frá hausti og fram að jólum var tætt smáband, sem kallað var, það voru vettlingar og sokkar . Með þetta fór pabbi í kaupstaðinn fyrir jólin. Fyrir þá peninga var jólarússið keypt.Þá var farið á árabátum inneftir til Akureyrar, svo þetta var mikil ferð. Mikil gleði var hjá okkur krökkunum, þegar pabbi kom með koffortið inn á baðstofugólfið, og tók upp úr því. Við áttum alltaf eitthvað sem hann hafði keypt fyrir okkur. Á aðventunni var annars aldrei neitt um að vera . Ég held að maður hafi bara hamast við að vinna, meðan maður gat. Það kom fyrir að séra Kristján kom og sagði okkur krökkunum sögu. Annað var nú ekki til skemmtunar. Svo var farið að undirbúa jólin , allt þvegið hátt og lágt. Að sjálfsögðu var búið til laufabrauð. Gera varð margar kökur, en hverjum manni var skammtað . Mamma bakaði einnig eitthvað til jólanna, þó hún hefði enga eldavél , þá bjó hún til kleinur og pönnukökur. Pabbi kom ævinlega neð jólaköku úr kaupstaðnum en bakarí var á Akureryri. Það var ósköp mikil gleði hjá okkur börnunum yfir þessu öllu , og við hlökkuðum mikið til jólanna.

Pabbi smíðaði jólatré

Svo komu nú blessuð jólin, aðfangadagurinn. Þá klæddi mamma okkur í bestu fötin sem við áttum, þó það sé ekkert eins og núorðið. Pabbi var ágætur smiður og smíðaði svilítið jólatré. Við krakkarnir tókum falleg umbúðabréf og bjuggum til kramarhús. Voru rúsínur og gráfíkjur og því um líkt látnar í þau. Það var fjrska mikil gleði hjá okkur öllum yfir þessu. Þetta var sem sagt góð æska sem við áttum öll krakkarnir. Þó við værum fátæk höfðum við samt nóg.

Fullvel man ég.

Síðan fórum við að labba í kringum jólatréð. Mamma gat lítið sungið, en pabbi söng ákaflega fallega og vel, einnig einn bróðir minn og systir. Ég man hvað ég var hugfangin að horfa á jólatréð og allt þetta. Við jólatréð sungum við kvæði séra Matthíasar:

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

  Allt þetta kvæði sungum við alveg hreint, og ég hafði það einnig fyrir sið er ég síðar bjó í Garðshorni. Jólahugvekjan var því næst lesin, pabbi og Inga systir sungu og reyndi ég eitthvað að taka undir.Brátt fór mamma að skammta jólamatinn. Það var hangikjöt og döndull, sem kallaður var, þ. e sperðlar magáll og laufabrauð. Kerti fylgdi einnig hverjum diski, eitt stórt kerti. Mamma hitaði einnig súkkulaði og gaf okkur með þessu fína brauði sem manni fannst. Þetta var allt svo yndislegt og skemmtilegt. Við létum smákerti á bita, borðstóla og bök. Annars var nú baðstofan lítil og lítið hægt að gera. Áður en við sofnuðum kom mamma og las jólasögu fyrir okkur og síðan signdi hún yfir okkur.

Sr. Kristján var alltaf góður við mig.

Á jóladag er við vöknuðum var sami gleðiljóminn yfir öllu. Þá var farið til kirkju og mamma sagði að við mættum einnig fara ef við værum bara nógu stillt. Séra Kristján heitinn Eldjárn var þá prestur á Tjörn, og ég man þegar ég kom, tók hann mig upp og sagði ; ,, ja hvað þú ert orðin falleg og stór".

Jólasveinninn á glugganum

Ég man að eitt sinn var ég inni við á jóladag og þá kemur einhver á gluggann. Ég varð voðalega hrædd ég vissi ekkert hvað þetta var. En þetta var þá jólasveinninn. Það var þá strákur af næsta bæ, Tryggvi Svörfuður frá Brekku , sem bjó sig svona til . Hann var svo sniðugur að það var ekki nokkru líkt. Þetta var góður strákur. Hann vissi að ég átti enga skauta, en hafði fjarska gaman af að vera á skautum, svo hann gaf mér skautana sína. Hann hann hafði gert gat á poka og steypt yfir sig, setti reipi yfir sig ofanverðan. Svo setti hann á sig loðhúfu, var hún skreytt með allra handana fjöðrum. Hann var alveg voðalega skrýtinn og ég hrædd eftir því. Ég fór að skæla , svo einn bróðir minn tók mig og fór að lýsa þessu fyrir mér. Og þegar allt var búið hafði ég gaman af öllu saman.

Grýla reið með garði

Það var einnig minnst á Grýlu í tengslum við jólin, maður lærði þessi lifandis ósköp af grýlukvæðum. Það er vert að ég man vart nokkra þulu núna þessa stundina. Einnig voru til margar jólasveinaþulur.

Margir kunna þessa þulu:

Grýla reið með garði,
gekk með henni Varði,
hófar voru á henni,
hékk toppur úr enni.
Dró hún belg með læri,
börn trúi ég þar í væri.

Þetta er ein af ótalmörgum Grýluvísum sem ég kunni.

Engar jólagjafir í Brekkukoti

Það kom fram í máli Önnu, að engar jólagjafir voru gefnar þegar hún var barn í Brekkukoti, nema þá ef börnin fengu nýja flík, og svo kerti. ,,Það var ekki fyrr en ég kom í Syðra- Garðshorn sem byrjað var með jólagjafirnar. Ég man eftir fyrstu jólagjöfunumsem ég gaf börnunum, en þá gaf ég drengjunum bindi, en stúlkunum náttkjóla, sem ég saumaði handa þeim. Þegar börnin áttu von á jólunum, þurfti ég alltaf að segja þeim að jólasveinarnir væru þarna og þarna, uppi á Nikurtjörn, uppi á björgum. Svo biðu þeir við hlöðuhornið þangað til þeir komust heim í bæinn. Þeir hurfu aftur á braut, þegar kveikt var á kertunum. Ég sagði börnunum líka að jólin kæmu eitt hænufet á dag á jólaföstunni og kæmu inn í bæinn klukkan sex.

Mikil gleði í Syðra-Garðshorni

Krakkarnir dönsuðu mikið í kringum jólatréð og einnig var mikið sungið og spilað . Krakkarnir fengu alltaf spil og mikið af kertum. Það var mikið um heimboð til okkar, og þá var farið í marga leiki. Fólkið kom af öllum bæjunum í kring. Það var óskaplega gaman, og krakkarnir léku sér mikið og fannst sérstaklega gaman í feluleik í dimmum göngunum.

Hver hafði bara rétt handa sér

En í Brekkukoti voru engir jólaleikir. Altt var svo einfalt eins og það gat verið. Áramótin í Brekkukoti voru heldur ekkert öðruvísi en tíðkaðist. Það var lesið og sungið og farið til kirkju . Við krakkarnir lékum okkur, fórum mikið á skauta og skíði.. Borðaður var sami matur og um jól. Auðvitað voru ekki til nein blys , en þegar gott var veður, fórum við út með kerti og veifuðum þeim í kring um okkur. Engin heimboð tíðkuðust þegar ég var í Brekkukoti, hvorki um jól né áramót, fólkið hafði ekki uppá neitt að bjóða, nema bara þetta vanalega. Það rétt hafði hver handa sér. Þannig var þetta á flestum bæjum , fólkið bara rétt komst af.

Presturinn var Vofa

Þegar Júlíus var þriggja ára (Júlíus Daníelsson sonur Önnu, innsk J.J) var álfadans á Skakkabakkanum, og fékk strákur að fara. Sveinbjörn bróðir minn hélt á honum á handleggnum. Dansað var í kringum brennuna. Þór á Bakka og systir hans voru drottning og kóngur, en við Daníel vorum prinsessuhjónin. Júlíus horfði ósköp hugfangin á þetta. Síðan er ekki miera um þetta að segja, nema um vorið var Jóhann skírður (Jóhann Danílesson sonur Önnu inssk J.J) í Tjarnarkirkju. Þá var séra Stefán Kristinsson tekinn við sem prestur á Tjörn og Bolla (Ingibjörg) dóttir hans spilaði á orgelið . Júlíus fékk að fara til kirkjunnar til að vera við skírnina, og gekk það allt vel. Stuttu síðar var Júlíus spurður hvort gaman hefði verið að fara í kirkjuna. Þá segir hann: Ja presturinn var vofa, en Bolla hafði handleggi. Þá var enn ljóslifandi í huga stráksins myndin frá álfadansinum. Þar voru púkar og einn þeirra var í hvítri skikkju og og stráknum fannst það vera vofa . Presturinn var eitthvað líkur þessari veru þegar hann lyfti höndunum. En Bolla var með bera handleggina svo það var augljóst hvers kyns hún var. Margt fleira rifjaði Anna upp, og ljóst er af frásögn hennar að oft hefur hún notið góðra daga og skemmtilegra stunda með góðu fólki. Með þeim orðum þökkum við henni fyrir spjallið.

 

 Í gamla daga

 Unnur Sigurðardóttir og Ágúst Bjarnason rifja upp bernskujól.

Þau eru bæði látin.

 

Ágúst Bjarnason

Fæddur 1917 , ólst upp í Grímsey. “Ég man ekki til þess að hafa fengið jólagjöf þegar ég var krakki, einna helst hafa það verið skór, sauðskinnskór og íleppar. Hangikjötið var skammtað og sett í sérstaka kassa sem hver og einn fékk. Það var aldrei nýtt kjöt á jólum. Jólatré voru skreytt með pokum og góðgæti sett í þá , t.d brenndur sykur. Það var langt að fara í kaupstað og auðvitað róið til Akureyrar, farið á árum. Svo komu stundum skip frá landi og þá var farið til Húsavíkur t.d ef það þurfti að sækja lækni. Eins og ég segi þá var ekki mikið um jólagjafir. Það er eins og mig minni að hver og einn hafi fengið tvö til þrjú kerti en ég minnist þess ekki að þau hafi verið steypt út í ey. Þau hafa komið einhversstaðar frá.Ef um aðrar gjafir var að ræða , voru það föt og skór.”

 

Tóvinna.

"Það var mikið prjónað fyrir jólin . Ég var við að kemba og eins þæfði ég en ég lærði aldrei að prjóna, ég man eftir því þegar fyrsta prjónavélin kom út í ey. Það var ljósmóðirin sem átti hana og það fóru allir til hennar og fengu að prjóna. Við krakkarnir vorum mikið við að bera vatn úr brunnunum og ég man að reyndum að hafa nóg vatn til þess að geta átt frí um jólin.”

Hangikjötið reykt í bænum.

"Ég átti heima í torfbæ og hangikjötið var alltaf reykt inni í fremra eldhúsinu í bænum og það var því mikill ilmur um allan bæinn. Gjallið var síðan hreinsað úr öskunni og svo var því dreift um gólfið og sópað en gólfin voru glerhörð. Fjósið var áfast bænum sem við sváfum í og um jólin var reynt að velja besta heyið handa öllum skepnunum. “

Jólabaðið

"Ég man að fyrir jólin voru allir baðaðir upp úr þvottabala og það var heilmikið umstang að hita vatnið. Það þurfti að sækja vatnið í brunnana og því reynt að fara sparlega með það. Krakkarnir fóru nú flestir í sama baðið það var rétt bætt út í annað slagið . Það var líka talsvert um að snjórinn væri bræddur og skepnum var líka mikið gefinn snjór.”  

 

Unnur Sigurðardóttir  -  Svæði

"Ég er fædd í Höfn 1908 , en pabbi byggði húsið 1906 . Ég man fyrst eftir mér þegar ég var fjögurra ára . Fyrstu jólin eru mér sérstaklega minnistæð vegna þess að ég átti bróður Guðjón, sem var tíu árum eldri en ég og hann var strax mjög laginn við smíðar , þegar hann var drengur þá smíðaði hann lítið jólatré . Það komust á það 12 ljós . Það voru þrjár greinar í röð og fjórar raðir , kertin voru lítil , mislit snúin og ég man að pabbi gaf okkur þau”.

 Farið á árabátum í kaupstað og keypt til jólanna.

"Það var nú farið á árabátum til Akureyrar fyrir jólin til að kaupa ýmsan varning . Ég man að fyrir jólin var tætt smáband sem kallað var, spunnið og prjónaðir sokkar og vettlingar úr haustullinni þegar gærurnar voru rakaðar og skinnið auðvitað . Sokkarnir voru háir , upp undir hné og sjóvettlingar. Svo var þetta lagt inn og keypt fyrir þetta til jólanna, t.d eitthvað góðgæti”.

 

Á Jólunum

"Ég man að Guðjón fékk að fara til Akureyrar af því að hann var þetta eldri . Hann hefur nú átt einhverja aura, því hann kom með svo fallegan pappír , allavega á litinn til þess að riða jólapoka. Þessa poka settum við svo á tréð til þess að skreyta og líka englahár og svo var kóngurinn efstur. Mamma gaf okkur svo gráfíkjur eða döðlur til þess að setja í pokana . Á jólanóttina var svo dregið um pokana. Pabbi las síðan alltaf húslesturinn, hann var alltaf öðruvísi lesinn heldur en bókalesturinn. Pabbi las alltaf upp úr Helga Hálfdánarsonar Postillu. Ég man svo vel eftir þessari jólanótt. Ég átti lítið skammel  sem Guðjón smíðaði handa mér og ég sat svo oft á því þegar pabbi var að lesa upphátt  á kvöldin .Og svo sat ég á þessu þarna á jólanóttina og það var búið að skreyta tréð og setja það upp á borðið  og pabbi sat við borðið og las húslesturinn og mamma söng" í dag er glatt í döprum hjörtum". Mér fannst þetta allt svo hátíðlegt að mér fannst ég sjá jesúbarnið í jötunni. Ja, þvílíkt. Ég er búinn að lifa mörg skemmtileg jól en ég man ekki eftir neinum sem fest hafa eins vel í mér eins og þessi “.

 

 Jólamaturinn

"Á jólanóttina var auðvitað borðað hangikjöt og laufabrauð. Svo var gefin súpa,kjötsúpa eða eitthvað álíka. Það var ekki mikið um nýtt kjöt, ég man ekki eftir því, að það hafi verið slátrað sérstaklega fyrir  jólin. Það voru döndlar sem kallaðir voru magálar . Döndlarnir voru búnir  til úr ristlunum.Þeir voru ristir skafnir upp og þvegnir. Síðan var þetta vafið upp og saumað utan um þindarnar  og reykt og notað sem álegg á brauð.

Heimildir
Jólablað Bæjarpóstsins 1993. Birt með leyfi blaðsins.

 

Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla

Englahár

Jól í Konsó

Jól hjá Gunnþóri

Jólin í fyrri  daga

Jólaminningar frá Tjörn

Jólaminningar frá Völlum

Rotaður í  fjósi á jólanótt.

Epli og snjór í öllum bænum

Jólaminningar frá Gullbringu

Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð

Jólafrásagnir frá ykkur - Sendu þína !

 Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður

 

 

TIL BAKA

 

 Júlíus Júlíusson  -   Jólavefur Júlla 1999 - 2000 - 2001 - 2002 - 2003 - 2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 - 2012