Jólavefur Júlla 2012

Copyright Jólavefur Júlla ©


Bernskujól fyrir 66 árum (2001) Gestur Guðmundsson segir frá


Úr jólablaði Norðurslóðar 2001. Birt með leyfi blaðsins.©

Aðfangadagskvöld í Gullbringu 1940. Málverk eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Gullbringu. Af forsíðu jólablaðs 2001.

Sunnanátt og hlýindi síðustu dagana í nóvember eftir heldur kalt og umhleypingasamt haust.

Gullbringukrakkarnir voru orðin heldur leið hvert á öðru í þrengslunum og hávaðanum sem fylgdi því jafnan þegar veður hamlaði útiveru, enda var þetta stór hópur; þrettán er upp komust. Hlý sunnangola fyllti þau fögnuði og frelsi eins og kýr sem hleypt er út að vori eftir langan vetur. Útihurðin var rifin upp og skarinn streymdi út og dreifðist. Flest fóru til fjalls, gjarnan uppí bæjargilið þar sem volgrurnar var að finna og músarrindillinn tísti og lék við hvern sinn fingur. Þaðan var haldið út í Hraun, tyllt sér á steina og gómagöngin þanin til að láta Hraunið taka undir og bergmála, því það var svo gaman. Þegar fór að birta og við sáum að rjúka tók á bæjunum var haldið heim. Við vorum „nefnilega“ (eins og Gestur í Bakkagerði notaði svo gjarnan) sárasjaldan háð klukkunni, en þeim mun oftar veðrinu.

Álgöt - eitt af undrum veraldar?

Þegar jólafastan hófst var eins og andrúmsloftið í bænum yrði að heita má rafmagnað, því svo margt þurfti að gera. Allir voru fyrir öllum. „Greyin mín getið þið ekki verið úti að leika ykkur? Þið tefjið bara fyrir, því eg þarf að gera svo margt,“ sagði mamma.

Þreytan og kvíðinn leyndu sér ekki. Við Ragnar, sem var tveimur árum yngri en ég, létum okkur hverfa. Við röltum þögulir með skautana okkar niður á Tjarnartjörn og hugsaði hvor sitt. Eftir þrúgandi þögn meðan við bundum á okkur skautana réttir Ragnar úr sér og segir: „Mér finnst engin jól vera að koma þegar mamma er svona þreytt.“ Eg ætlaði að svara einhverju en datt þá á hausinn, því eg hafði rekið annan skautann ofan í holu í svellinu. „Hvers konar hola er nú þetta?“ spurði Ragnar og áhyggjurnar gleymdust snarlega. „Þetta er álgat,“ segi eg og er nú búinn að ná velsæld minni á ný. „Anda álarnir í gegnum þessi göt?“ spyr Ragnar. „Hálfviti ertu,“ segi eg drýgindalega, „þeir anda með tálknum.“ Nú upphófust miklar bollaleggingar um þau undur sem okkur fannst þetta vera, en engin niðurstaða fékkst. „Skyldu þeir á Tjörn vita hvernig þessi göt verða til?“ segir Ragnar. - Þegar heim í Tjörn kemur hittum við fyrir Tóta, sem oftar en ekki hafði hafði leyst vel úr ýmsu sem okkur lá á hjarta. „Þetta eru bara álgöt,“ segir hann og ekki meir um það. Á meðan við drukkum mjólkina og borðuðum brauðið sem Tóti bauð okkur var eg að hugsa um hvað það væri undarlegt með þá Tjörnunga að vita ekkert um þau undur sem væru svo að segja í túnfætinum hjá þeim, en eiga það svo til að liggja úti í varpa á stjörnubjörtum haustkvöldum með hendur undir hnakka, starandi upp í stjörnur og norðurljós, þyljandi nöfn stjarna og stjörnumerkja og veita okkur, þessum bláeygu, margvíslegan fróðleik um gang himintungla, en vita svo ekki af hverju álgöt stöfuðu.

Aðföng

Eitt var það í jólaundirbúningi heima hjá okkur, sem eg held að hafi ekki verið hjá öðrum í sveitinni, en það var einijólatréð sem við gerðum fyrir hver jól. Til þess að af því gæti orðið þurfti að fara hátt upp í fjallshlíðina til að sækja eininn og þótti ekki tiltökumál. Þetta verk kom oftar en ekki í hlut okkar Ragnars. Þessir leiðangrar gátu orðið hinar mestu háskaferðir því stundum var fjallshlíðin þar sem einirinn óx svo að segja ein svellglæra. Að heiman bjuggumst við ýmsum búnaði, svo sem beittum hníf, sög, skóflu og ekki mátti gleyma kaðli og snærum, því oft þurftum við að fara í vað yfir hörðustu hjarnbreiðurnar meðan við hjuggum spor í snarbrattan frerann. Sem betur fór urðu aldrei nein óhöpp, þótt stundum stæði tæpt.

Svo þegar við komum niður úr mesta brattanum slaknaði á spennunni hjá okkur og við fórum að tala um ýmislegt sem varðaði jólahaldið heima hjá okkur og öðrum sem við þóttumst þekkja til í sveitinni. Alls kyns samanburður við önnur heimili kom þá oftar en ekki upp á yfirborðið hjá okkur, þar sem þetta og hitt hlyti bara að vera miklu skemmtilegra hjá okkur en öðrum. Hverjir höfðu t.d. einijólatré og hverjir höfðu Sundskálann til að baða sig í, aðrir en við? Í framhaldi af því segi eg Ragnari í trúnaði frá því að sumt fólk þurfi að þvo sér um skrokkinn upp úr þvottabala við hin aumustu skilyrði. Eg tek nú upp á því að hlæja þarna á göngunni eins og auli. „Að hverju ertu að hlæja?“ spyr Ragnar með undrunartón. Eg dreg við mig svarið meðan eg er að ákveða hvort eg eigi að segja honum frá því sem mér datt í hug. „Nú hvað var það?“ spyr Ragnar aftur og má nú merkja mikla óþolinmæði í röddinni. Þá get eg ekki þagað lengur en segi honum frá því að eg hafi komið á bæ fyrir nokkru, þar sem konan var að baða manninn upp úr þvottabala. „Nú, hvað - er eitthvað svo merkilegt við það?“ spyr Ragnar. „Já, því hann var svo snjóhvítur á skrokkinn en hendurnar svo dökkbrúnar og útiteknar eins og þær væru bæsaðar!“ Þannig mösuðum við áfram á heimleiðinni, alteknir gleði yfir vel heppnaðri einiferð.

Hvaðan koma jólin?

Þegar aðfangadagur rann svo upp átti undirbúningi jólahaldsins að vera að mestu lokið, en það var auðvitað aldrei svo að eitthvað væri ekki eftir. Fátækraþerririnn hafði ekki brugðist að þessu sinni og hangiðkjötssuðan frá gærdeginum fyllti bæinn unaðsangan. Jólatréð stóð tilbúið og skreytt frammi í stofu, stutt og digurt með allskyns poka og böggla utaná sér eins og Stutta Stína þegar sem mest var um fyrir henni á bæjarflandrinu. Systurnar höfðu það sem sérverkefni að skreyta tréð og fórst það alla jafnan vel úr hendi, enda fengu þær algjörlega að ráða skreytingunni. Allt skraut bjuggu þær til sjálfar og fengu jafnan mikið lof fyrir. Að vísu var samanburður ekki mjög mikill og kröfugerð eftir því. Eg minnist þess að stundum þóttu yngstu systurnar ekki flýta fyrir skreytingalistinni og komið gat þá fyrir að stuggað var við þeim, svona helst til mikið, í því algleymi gleðinnar sem athöfninni fylgdi. Það gat tekið ansi mikið á ungu hjörtun að vera hafnað á slíkum augnablikum, enda kom það ósjaldan fyrir að harmi sollin augu Snjóku litlu leituðu ásjár hjá mömmu, sem hafði þrátt fyrir ómælt annríki alltaf tíma aflögu fyrir volandi smáfólk.

Nú var farið að líða á aðfangadaginn og spennan jókst með hverri mínútunni sem leið. - Hvaðan og hvernig skyldu jólin koma? Hvernig verður heilagt? Slíkar vangaveltur þyrluðust um barnssálina án þess að nokkur svör fengjust. Eg neyddist til að koma mér upp kerfi í huganum þar sem eg einfaldaði komu jólanna með því að segja við sjálfan mig þegar mér fannst rétta stundin runnin upp: - Nú setjast þau á Digrahnjúkinn, hoppa þaðan niður á Efri-bunkann og svo á þann Neðri, síðan stall af stalli alveg niður að túngirðingu og þá er orðið heilagt, biðin á enda og jólin komin.

Göngum við í kringum

Það þótti sjálfsagt að borða klukkan sex til að lengja kvöldið sem mest. Allir höfðu þá klætt sig sem best þeir máttu og nutu matarins í hljóðlátri gleði miðað við allan Gullbringuhávaðann sem maður var óneitanlega vanari. Svarta Hiltlersskeggið á pabba fór hið besta við hvíta skyrtuna og manni fannst hann allt að því framandlegur með stóra vindilinn, sem hann treindi sér þó að kveikja í þar til eftir matinn. Kálfssteikin á aðfangadagskvöld var reyndar ekki mjög vinsæl af öllum, en svo kom blessuð sætsúpan. Þá þóttu rjúpur hvunndagsmatur og því ekki spennandi. Á jóladag og annan í jólum var venjulega hangikjöt en á þriðja borðuðu þeir sem vildu signa ýsu. Smjöttuðu þeir þá gjarnan og umluðu eitthvað í þá áttina hvað það væri nú gott að fá fisk eftir allt ketátið. Við hin, þessi sem vorum á miðjum aldri, þ.e.svona sex til tólf ára, fórum líkt að og beljurnar í fjósinu þegar þeim var gefið það sem þær vildu ekki, en þá hnusuðu þær gjarnan út í loftið með heimspekilegri ró eins og þær væru að segja: „Þetta er ekki einu sinni mannamatur, hvað þá fyrir okkur!“

Það kom ósjaldan fyrir að Haraldur, elsti bróðirinn, birtist í eldhúsdyrunum þegar við vorum byrjuð að borða á aðfangadagskvöld, en hann var þá við rafvirkjastörf á Akureyri. Ekki minnkaði gleðin í bænum við komu hans, því bæði var að okkur fannst hann afar skemmtilegur og svo ekki síður hitt, að hann gaf okkur oftast einhverjar jólagjafir, svo framarlega sem hann hafði nokkur tök á. Eftir að við höfðum borðað var kveikt á jólatrénu sem nú stóð eins og óþreyjufullt og beið í fremri baðstofunni eftir því að við tækjumst í hendur, gengjum í kringum það og hæfum jólasönginn. Samkennd og mikil helgi gagntók okkur nú þarna við tréð. Söngurinn ómaði og fyllti baðstofuna, hver sálmurinn eftir annan var sunginn og í hjarta mínu þakkaði eg Þórarni á Tjörn fyrir hvað hann hafði kennt okkur marga sálma á liðnum vetrum, þó fleiri hafi vissulega komið þar að. Ég man enn töfrana frá flökti kertaljósanna, sem mynduðu ólýsanlegar hreyfimyndir á baðstofuþiljunum með skuggunum af okkur þegar við gengum í kringum tréð.

Er söngurinn hljóðnaði var loksins farið að kíkja á jólagjafirnar, ef um aðrar var að ræða en einhvers konar föt sem maður hafði vísast þá þegar klæðst. Yfirleitt var töluvert um bækur og smá leikföng og gátu nú flestir snúið sér að eigin hugðarefnum. - Þegar kertin voru langt komin að brenna upp birtist mamma í baðstofudyrunum, oftast með eitthvert góðgæti. Hvílíkt stolt og hvílík gleði skein úr ásjónu hennar þegar hún leit yfir hópinn sinn - því gleymi ég aldrei. Hún hafði þá eftir allt saman greinilega hlotið einhverja smá umbun alls erfiðis síns.

Jólamessa í Tjarnarkirkju

Á jóladaginn var svo oftast farið í Tjarnarkirkju, þar sem séra Stefán Snævarr predikaði. Mér fannst það fremur fallegur prestur sem talaði með miklum helgiblæ, en heldur leiðigjarnt að hann skyldi alltaf segja okkur sömu söguna, sem maður lærði auðvitað strax og byrjaði svona: - Það bar við um þessar mundir_ Mér varð starsýnt, eins og sjálfsagt fleirum, á skemmtilegan ávana sem hann hafði tileinkað sér og fólst í því að meðan hann flutti ræður sínar, sem mér fannst hann gera með slíkum hátíða- og glæsibrag að betur yrði ekki gert, þá ruggaði hann sér aftur á hæl og upp á tábergið þannig, að þegar hann lyftist lokuðust augun en þegar hann seig niður aftur héldust augnalokin uppi svo augun opnuðust, alveg í takt við hreyfinguna. Seinna lagði hann að mestu af þennan skemmtilega vana, því miður, verð eg að segja.

Söngurinn í kirkjunni er mér mjög minnisstæður, þar sem Þórarinn á Tjörn og Daníel í Syðra-Garðshorni drundu svo þýtt og fallega að rúðurnar glumruðu á ryðguðum nöglum í gisnum gluggafögunum. Auðvitað kostuðu þessir miklu og djúpu tónar sitt, því þrengslin á söngloftinu voru slík að þegar þeir bjuggu sig undir erfiða frasa drógu þeir svo djúpt andann, að þeir sem framan við þá stóðu þrýstust fram á orgelið svo það bifaðist í takt við loftþörf bassanna. Svona minnir mig a.m.k. að þetta hafi verið. Tryggvi í Brekkukoti tónaði tenorinn tært og mjótt en Diddurnar, Mæjurnar og Nöbburnar sáu um háu og ljúfu tónana. Af kvenröddum var jafnan mikið úrval og kom það sér vel, því konur stóðu yfirleitt mun styttra við í kórnum en karlarnir.

Svo þegar komið var heim úr kirkjunni var þess ekki langt að bíða að súkkulaðið og kökurnar færu að renna niður þurfandi hálsa. Og meðan við drukkum og borðuðum dvínuðu einhvers staðar innra með manni síðustu ómarnir frá kirkjusöngnum. Þeir hafa þó ekki enn náð að deyja alveg út. Þetta voru mín fyrstu kynni af kórsöng og tel eg mig mikinn heppnismann að eiga minningar frá þessum tíma um þetta ágæta söngfólk sem bjó mig út í lífið með þessar minningar.

Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla

Englahár

Jól í Konsó

Jól hjá Gunnþóri

Jólin í fyrri  daga

Jólaminningar frá Tjörn

Jólaminningar frá Völlum

Rotaður í  fjósi á jólanótt.

Epli og snjór í öllum bænum

Jólaminningar frá Gullbringu

Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð

Jólafrásagnir frá ykkur - Sendu þína !

 Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður

TIL BAKA

 

 Júlíus Júlíusson - . Jólavefur Júlla 2002 - 2003 - 2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 - 2012

Póstur