Jóhann Kristinn Pétursson, Svarfdælingur.
Stærsti Íslendingur sem uppi hefur verið. Jóhann
var fæddur 9. febrúar 1913, þriðji í aldursröð
níu systkina. Við fæðingu vó hann 18 merkur.
Jóhann Svarfdælingur, en svo var hann ætíð
nefndur, var kunnastur fyrir hæð sína. Var hann hæsti
Íslendingur sem sögur fara af, og var um tíma talinn
hæsti maður í heimi, og mældist 2,34 metrar á
hæð og vó þá 163 kg. Þar sem Jóhanni
gekk erfiðlega að fá atvinnu hér heima, við sitt
hæfi, varð hann að leita fyrir sér á á
erlendri grund. Árið 1935 ári eftir Dalvíkurskjálftann,
þá 22 ára gamall, fór hann til Danmerkur og
starfaði á Norðurlöndum, og hafði atvinnu af því
að sýna sig í fjölleikahúsum. Ferðaðist
hann víða um heim, og kom meðal annars fram á heimssýningunni
í París 1937. Þegar Heimsstyrjöldin síðari
skall á 1939, lokaðist Jóhann inni í
Kaupmannahöfn
og var þar öll stríðsárin. 1945 kom hann heim
til Íslands og ferðaðist vítt og breitt um landið
og sýndi kvikmyndir. Aftur hvarf Jóhann að sínu
fyrra líferni og nú vestur um haf til Bandaríkjanna
1948 og var þar óslitið til ársins 1982, er hann
flutti til Íslands. Heimkominn til Dalvíkur
varð hann íbúi Dalbæjar, Dvalarheimilis aldraðra á Dalvík og bjó þar
til dauðadags, hann lést 26. nóvember 1984, og hvílir
í Dalvíkurkirkjugarði. Á byggðasafninu Hvoli
Dalvík, er sér herbergi tileinkað honum, þar sem
munir hans eru geymdir t.d. reiðhjól, klæðnaður
frá því hann var í fjölleikahúsum
erlendis, skór, myndir og margir aðrir
persónulegir munir hans. Það er virkilega þess virði
að koma við á þessu byggðasafni og líta
þar á þessa muni Jóhanns Svarfdælings,
einnig er margt annað skemmtilegt að sjá t.d. Stofa Kristjáns
Eldjárns (mynd af Jóhanni og Kristjáni)
fyrrverandi forseta Íslands, stór uppstoppaður ísbjörn
o.f.l. |